miðvikudagur, 24. desember 2008

Jólin eru komin..



...einu sinni enn. Voðalega á ég bágt með að trúa þessum orðum mínum. En þau eru víst staðreynd. Ég sit hérna í efri stofunni hjá pabba og mömmu og stelpurnar horfa á jólabarnatímann og ég blogga á meðan. Mér finnst svolítið fyndið að hugsa til þess hvað er stutt síðan ég var í þeirra sporum. Að bíða og bíða eftir að tíminn líði. Þær fengu bækur í skóinn og Sara Ísold var alveg heilluð af hæfileikum sveinka sem hafði skrifað jólamiða til þeirra með pakkanum. Ég fékk líka bók í skóinn, það er bókin, "Sá einhverfi og við hin" og ég er mjög spennt að byrja að lesa hana. Ég er núna að klára að lesa bókina um einhverfu og hún er mjög áhugaverð og svarar mörgum af mínum spurningum sem ég hef haft. Mér hefur reyndar reynst það erfið lesning því ég er einhvern veginn að átta mig á að Danía Rut verður alltaf einhverf, ein sein að fatta;) En já, jólin alveg að koma, það er alveg rosalega jólalegt hérna hjá pabba og mömmu og hérna líður okkur svakalega vel. Þau eru svo höfðingleg að hafa boðið okkur að vera hjá sér um jólin síðan leiðir okkar Davíðs skildu.

Þegar ég lít til baka yfir árið, þá er ég svo þakklát ofar öllu fyrir fjölskylduna mína, þá er ég að meina þá alveg nánustu, þau eru alveg dásamleg og hafa staðið með mér í gegnum súrt og sætt og verið tilbúin með faðminn og öxl og uppörvunarorð þegar lífið var erfitt. Ekki allir svona blessaðir. Svo eru þau auðvitað ótrúlega fyndin og skemmtileg og alltaf gaman að vera með þeim. En ég ætla ekki að hafa þetta lengra, ég ætla að fara að kúra með stelpunum mínum í sófanum og horfa með þeim á jólabarnatímann, svo er það jólabaðið þeirra á eftir. Njótið jólanna og ekki spara að knúsa fólk, það er svo notalegt svona á jólunum. Guð geymi ykkur öll sem lesið:) Kær hátíðarkveðja, Arna, Danía Rut, Sara Ísold og Þórey Erla:):):)